Skýrslurnar tvær eru afrakstur rannsóknarverkefnis um velferðar- og lífeyrismál sem unnið hefur verið að á vegum Eddu – rannsóknarseturs við Háskóla Íslands, undir stjórn Stefáns Ólafssonar prófessors.
Fyrri skýrslan, Árangur íslenska lífeyrissjóðakerfisins eftir Stefán Andra Stefánsson og Stefán Ólafsson, beinir sjónum sérstaklega að íslensku lífeyrissjóðunum og leggur mat á árangur lífeyrissjóðakerfisins á tímabilinu 1997 til 2019, meðal annars í alþjóðlegu samhengi. Fjallað er um stærð kerfisins og þróun, ávöxtun eigna og samsetningu, kostnað við rekstur lífeyrissjóðanna og getu til að standa við markmið kerfisins.
Seinni skýrslan, Kjör lífeyrisþega eftir Stefán Ólafsson og Stefán Andra Stefánsson, fjallar sérstaklega um kjör lífeyrisþega (eftirlaunafólks og öryrkja), ekki síst með hliðsjón af samspili almannatrygginga og lífeyrissjóðanna við mótun lífeyriskjara. Skerðingarreglur almannatrygginga eru í lykilhlutverki við mótun eiginlegra lífeyriskjara, auk skattlagningar lífeyrisgreiðslna til einstaklinga og verður slíkum þáttum gerð ítarleg skil.
Edda – rannsóknarsetur við Háskóla Íslands og Efling – stéttarfélag gefa skýrslurnar út.
~